Berkshire Hathaway, fjárfestingarsjóður sem bandaríski auðkýfingurinn Warren Buffett hefur stýrt í að verða hálfa öld, hagnaðist um 3,92 milljarða dala, jafnvirði tæpra 500 milljarða íslenskra króna, á þriðja ársfjórðungi. Til samanburðar nam hagnaðurinn 2,28 milljörðum dala á sama tíma í fyrra. Aukningin nemur 72% á milli ára.

Bloomberg-fréttaveitan bendir á að afkoman skýrist einkum af gengishækkun hlutabréfa, sem Buffett hafi keypt á lágu verði í fjármálakreppunni. Af einstökum fjárfestingum auðjöfursins aldna í nafni sjóðsins voru kaup á hlutabréfum Goldmans Sachs og General Electric fyrir 8 milljarða dala. gengishagnaður Berkshire af fjárfestingunni nam 1,2 milljörðum dala. Samkvæmt umfjöllun Bloomberg seldi Berkshire hlutabréf og eignir fyrir 3,18 milljarða dala á síðasta ársfjórðungi á sama tíma og það keypti aðrar eignir fyrir 1,18 milljarða.

Þessi háttur Buffett og félaga skilaði því að handbært fé í sjóðum Berkshire nam 47,8 milljörðum dala í lok september. Það jafngildir sex þúsund milljörðum króna, tæplega 3,7-faldri vergri landsframleiðslu Íslands í fyrra. Annað eins hefur aðeins einu sinni áður sést í sögu Berkshire Hathaway. Það var í lok júní í fyrra og vantar aðeins 115 milljónir dala til að slá metið.