*

miðvikudagur, 22. september 2021
Fólk 16. janúar 2020 12:53

Wassim Mansour ráðinn í steypuna

Steypustöðin hefur ráðið meistara í steypufræðum til að leiða gæðamál og sölusvið. Lýkur doktorsprófi á næsta ári.

Ritstjórn
Björn Ingi Victorsson er forstjóri Steypustöðvarinnar sem ráðið hefur Wassim Mansour (mynd að neðan) til að leiða gæðamál og sölusvið fyrirtækisins.
Gígja Einars

Wassim Mansour hefur verið ráðinn til að leiða gæðamál og sölusvið Steypustöðvarinnar og mun hann jafnframt taka sæti í framkvæmdastjórn félagsins. Wassim hefur 19 ára reynslu í steypu- og sementsiðnaðinum, þar af 15 ár í stjórnunarstöðum í sölu, tækni og viðskiptaþróun hjá stærsta steypuframleiðslufyrirtæki í Miðausturlöndum.

Wassim hefur einnig sinnt ýmsum ráðgjafastörfum víða um heim tengdum semtents- og steypuiðnaðnum. Wassim er aðili að Institute Concrete Technology í Bretlandi, American Concrete Institute og Beirut Order of Engineers. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir framlag sitt til steypuiðnaðar og kynnt margar nýjungar tengdar steypuiðnaðinum á ráðstefnum víða um heim.

Wassim er með meistaragráðu í steypufræðum frá Háskólanum í Reykjavík, diploma í háþróaðri steyputækni frá Institute of concrete Technology í Bretlandi og BS gráðu í byggingaverkfræði frá háskólanum í Líbanon. Hann mun ljúka doktorsnámi sínu á næstu ári en þar er hann að skoða nýjungar í umhverfisvænni steypu. 

„Það er mikill fengur fyrir Steypustöðina að fá Wassim til starfa til að leiða sölu- og gæðamál félagsins, enda hefur hann yfirgripsmikla þekkingu á atvinnugreininni sem mun nýtast í að þróa vörur okkar enn frekar til hagsbóta fyrir viðskiptavini okkar.  Ég er sannfærður um að reynsla hans og þekking komi til með að styrkja Steypustöðina,“ segir Björn Ingi Victorsson forstjóri Steypustöðvarinnar “