Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Watchbox sigraði viðskiptaþróunarkeppni Vodafone, Stökkpallinn. Voru úrslitin gerð kunngjörug á alþjóðlegri nýsköpunarráðstefnu Startup Iceland í Silfurbergi Hörpu í gær.

Stökkpallurinn hefur það markmið að styðja frumkvöðla á borð við Watchbox, í að þróa vörur og koma þeim á markað. Í verðlaun fær Watchbox eina milljón króna og fjarskiptastuðning frá Vodafone í tólf mánuði að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Watchbox er smáforrit sem nýtist fyrirtækjum þar sem hvert þeirra fær lokaðan séraðgang þar sem starfsmenn geta deilt myndum og stuttum myndböndum úr leik eða starfi á heimasvæði viðkomandi fyrirtækis.

Nýsköpunarfyrirtækið E21 varð í öðru sæti en fyrirtækið sérhæfir sig í þróun búnaðar sem einfaldar og bætir daglegt líf eldri borgara og fatlaðs fólks. Með nemum er hægt að fylgjast með rafmagnsnotkun, vatnsneyslu og einnig býður fyrirtækið upp á sérstakan neyðarhnapp sem notast við GPS-staðsetningartækni. Fyrirtækið E21 er íslenskt-kínverskt samvinnuverkefni. Í verðlaun fær E21 hálfa milljón króna og fjarskiptastuðning frá Vodafone í sex mánuði.

Í þriðja sæti varð sprotafyrirtækið Aurora Stream sem sérhæfir sig í þjónustu sem líkja má við sérsniðna tónlistarstöð fyrir hvert fyrirtæki en að mati fyrirtækisins skiptir miklu máli fyrir fyrirtæki að tónlistin á staðnum skapi vinalegt andrúmsloft fyrir viðskiptavini. Einnig aðstoðar Aurora Stream fyrirtæki við að koma markaðsskilaboðum til viðskiptavina á þægilegan og einfaldan máta. Í verðlaun fær Aurora Stream fjarskiptastuðning frá Vodafone í sex mánuði.