Bandaríska lyfjafyrirtækið Watson hefur gengið frá samningum um kaup á Actavis og greiðir fyrir það 4,25 milljarða evra, jafnvirði um 700 milljarða króna. Flest í kaupsamningi er í samræmi við það sem áður hefur verið frá greint: Lungi verðsins fer upp í skuldir við Deutsche Bank sem fjármagnaði yfirtöku Novators, félags Björgólfs Thors Björgólfssonar, á Actavis síðsumars árið 2007. Erlendir fjölmiðlar sögðu líkur á að tilkynnt yrði um kaupin í dag, allavega áður en Deutsche Bank birtir uppgjör sitt á morgun. Lán Actavis eru umfangsmiklu fyrirtækjalánin í bókum bankans.

Björgólfur Thór Björgólfsson
Björgólfur Thór Björgólfsson
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)

Auk Deutsche Bank fá Landsbankinn, Straumur og Glitnir hlut af kaupverðinu. Ekki er gefið upp um nákvæma upphæð í tilkynningu að öðru leyti en því að um tugi milljarða sé að ræða.

Þá eignast Novator hlut í sameinuðu félagi. Hann liggur ekki fyrir en ræðst af afkomu Actavis.

Eftir kaupin verður sameinað félag þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims. Það er í samræmi við stefnu Watson stefndi að því með kaupunum að fóta sig á lyfjamarkaði utan Bandaríkjanna.

Hluti af skuldauppgjöri Björgólfs

„Ég átti frumkvæði að samningum við Watson, stýrði þeim í höfn og er sáttur við niðurstöðuna,“ er haft eftir Björgólfi Thor í tilkynningu. „Það lá beint við að kanna áhuga Watson á kaupum enda fjársterkt félag með öflugan rekstur og metnaðarfull markmið. Ég er sammála framtíðarsýn stjórnenda Watson og er sannfærður um að þetta sé rétt skref fyrir Actavis.“

Salan á Actavis er stór þáttur í skuldauppgjöri Björgólfs Thors og Novators við lánardrottna sem greint var frá í júlí árið 2010. Hann segist margsinnis hafa bent á að ekki sé hægt að gera upp skuldir nema raunveruleg verðmæti liggi að baki.

„Actavis er gríðarmikið fyrirtæki með starfsemi um allan heim og það var alltaf ljóst að það tæki tíma að koma fyrirtækinu í verð. Til allrar hamingju höfðu lánardrottnar allir skilning á því að ekki mætti flana að því verkefni og lögðu það í mínar hendur. Þess vegna fá þeir háar fjárhæðir endurgreiddar nú. Það er enginn efi í mínum huga að salan til Watson tryggir bestu hugsanlegu útkomu, öllum í hag. Ég hef alltaf stefnt að því að ljúka skuldauppgjöri mínu með sóma og salan á Actavis er mikilvægur áfangi á þeirri leið,“ segir hann.

Skrifað var undir viðskiptin í New York í Bandaríkjunum. Á myndinni eru frá vinstri Fabrizio Campelli, yfirmaður fjárfestinga Deutche Bank, Paul Bisaro, forstjóri Watson og Björgólfur Thor.

© Aðsend mynd (AÐSEND)