Axel Weber mun ekki sækjast eftir embætti bankastjóra Seðlabanka Evrópu. Þetta sagði hann í viðtali við Der Spiegel nú í morgun.

Ástæðan er sú að sum lönd innan evrópska myntsamstarfsins eru því ekki samþykk. Weber sagði að það væri slæmt fyrir trúverðugleika seðlabankans ef forsvarsmenn hans töluðu reglulega fyrir skoðunum sem njóta stuðnings minnihluta aðildarlanda myntsamstarfsins. Hann gat þess ekki hvaða lönd væri um að ræða.

Utan þessa finnst mörgum smærri löndum Evrópu áhrif Þýskalands þegar vera mikil. Seðlabankinn er staðsettur í Frankfurt í Þýskalandi, Þýskaland er sterkasta og áhirfamesta efnahagsveldi Evrópu og ef bankastjóraembættið væri í höndum Þjóðverja segja margir að áhrif landsins yrðu of mikil.

Weber, sem er 53 ára gamall, tilkynnti Angelu Merkel í gær að hann myndi hætta sem bankastjóri Seðlabanka Þýskalands í apríl næstkomandi þar sem hann hyggðist ekki sækjast eftir embættinu í evrópska seðlabankanum.