*

mánudagur, 27. janúar 2020
Erlent 12. desember 2019 11:09

Weinstein semur við fórnarlömbin

Öll nema tvö þeirra sem ásakað hafa leikstjórann um kynferðisbrot fá samanlagt um 5,7 milljarða króna bætur.

Ritstjórn
epa

Hollywood kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein hefur náð samkomulagi upp á 47 milljón dala bótagreiðslur vegna ásaka á hendur honum sem voru að mati margra kveikjan að MeToo samfélagsmiðlaherferðinni.

Það samsvarar um 5,7 milljörðum íslenskra króna, en af þessari fjárhæð fá konurnar sem hafa sakað Weinstein um áreiti um 25 milljónir dala, eða sem samsvarar tæplega 3,1 milljarði króna.

Þar af fara 6 milljónir dala beint til kvennana sem sakað hafa Weistein um að hafa neitt sig til kynferðislegra athafna og samræðis, en 18,6 milljónir fari í sérstakan sjóð fyrir fórnarlömb sem eigi eftir að koma fram.

Fór hópur fyrrum samstarfsfélaga og ásakanda í einkamál á hendur Weinstein, en samkomulagið felur í sér að Weinstein viðurkennir ekki á sig neina sök að því er WSJ greinir frá. Til að samkomulagið nái í gegn þarf dómari að samþykkja samninginn. Nær samkomulagið til allra nema tveggja af einkamálunum sem höfðað hefur verið gegn Weinstein.

Engin áhrif á sakamálið gegn Weinstein

Samkomulagið hefur þó engin áhrif á sakamálið gegn Weinstein, sem þingsett verður á Manhattan 6. janúar næstkomandi, en hann neitar sök í öllum ásökunum um að hafa þvingað konur til samræðis.

Af heildarupphæðinni mun loks 1 milljón dala fara í lögfræðikostnað Weinstein gegn þeim tveim ásakendum Weinstein sem ekki voru með í samkomulaginu nú, en lögfræðingar þeirra hafa sagt samkomulagið ósanngjarnt. „Fórnarlömbin fá einungis lítið brot af af því sem vænst var af skaðabótagreiðslunum,“ segir Thomas Giuffraó.

Er haft eftir Douglas Wigdor, lögfræðingi hins ásakandans að hann telji þetta samkomulag ekki bestu mögulegu niðurstöðuna. „Það er skammarlegt að 12 milljón dala af bótagreiðslunum fari til lögfræðinga kvikmyndaleikstjóranna sem sjálfir hafa verið sakaðir um að hafa aðstoðað Harvey Weinstein,“ sagði hann.