Bandaríska fjármálafyrirtækið Wells Fargo hefur skipað starfsmönnum að eyða kínverska snjallforritinu TikTok af tækjum á vegum fyrirtækisins. Amazon sendi póst sama efnis á starfsmenn í gær, en segist nú hafa sent póstinn „fyrir mistök“ og hefur dregið tilskipunina til baka. The Verge segir frá .

Talsmaður bankans segir ástæðuna fyrst og fremst snúast um persónuvernd og netöryggi, en þar fyrir utan séu snjalltæki sem fyrirtækið útvegi starfsmönnum sínum eign fyrirtækisins, og skuli aðeins notuð fyrir vinnu.

TikTok varð uppvíst að því fyrir skömmu að vista gögn sem notendur afrita, sem gætu innihaldið lykilorð eða aðrar viðkvæmar upplýsingar. Var þetta gert meðan snjallforritið var í gangi í bakgrunni símans, en notandinn ekki endilega að nota forritið.

Samfélagsmiðillinn kínverski hefur í kjölfarið hætt söfnun slíkra gagna, en uppljóstrunin ýtti aðeins undir áhyggjur sem fyrir voru af gagnaöflun og persónuverndarbrotum forritsins, sem er í eigu kínverska fyrirtækisins ByteDance.