Bandaríski bankinn Wells Fargo hefur ekki átt sjö dagana sæla upp á síðkastið. Nýverið komst upp skandall vegna gervireikninga sem starfsmenn bankans bjuggu til án vitundar viðskiptavina sinna.

Nú hefur bankinn komið sér í vanda og hefur verið sektaður vegna þess að bankinn hefur ekki gert almennilega áætlun um það ef hann skyldi verða gjaldþrota. Stórum bandarískum bönkum er skylt að skrifa svokallaða „erfðaskrá hinna lifandi banka“ sem kveður á um hvernig brugðist væri við gjaldþroti, án þess að almannafé tapist. Þetta kemur fram í frétt BBC um málið.

Bankinn hefur til mars til að undirbúa slíka áætlun. Í yfirlýsingu frá bankanum kemur fram að hann ætti að getað gert breytingar á högum sínum fyrir mars á næsta ári.