*

mánudagur, 27. janúar 2020
Erlent 16. júlí 2019 18:16

Wells Fargo eykur hagnað um þriðjung

Bandaríski bankinn hagnaðist um sem nemur 740 milljörðum íslenskra króna á öðrum ársfjórðungi.

Ritstjórn
Wells Fargo er fjórði stærsti banki Bandaríkjanna.
epa

Hagnaður fjórða stærsta banka Bandaríkjanna, Wells Fargo & Co, fór fram úr væntingum greinenda í uppgjöri annars ársfjórðungs, en bankinn hagnaðist um 5,85 milljarða Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 740 milljörðum íslenskra króna á tímabilinu.

Er það aukning um nærri þriðjung, frá 4,79 milljörðum dala á sama tíma árið áður. Ástæðan fyrir árangrinum er sögð vera niðurskurður í kostnaði á sama tíma og lánveitingar bankans hafi aukist. Þannig fór hagnaðurinn á hlut úr 98 sentum í 1,30 dali, en greinendur höfðu búist við 1,15 dala hagnaði á hlut.

Bankinn, sem er með höfuðstöðvar í San Fransisco í Kaliforníu, hefur þurft að vinna til baka traust fjárfesta og viðskiptavina eftir tveggja ára rannsókn um óeðlilega söluhætti og sektargreiðslur. Settur forstjóri, Allen Parker segir bankann hafa náð markmiðum á þessum öðrum ársfjórðungi undir hans stjórn með því að einblína á viðskiptavini og að fara að skilyrðum eftirlitsstofnana.

Heildarkostnaður bankans dróst saman um 533 milljónir dala á milli ára, og nam hann 13,4 milljörðum dala, á sama tíma og lánveitingarnar jukust um 0,6%, í 949,88 milljarða dala.