Bandaríska fjármálafyrirtækið Wells Fargo er nú´komið upp fyrir Citigroup sem þriðji verðmætasti banki Bandaríkjanna.

Markaðsverðmæti Wells Fargo nam 112 milljörðum Bandaríkjadala við lokun markaða í gær, um tíu milljörðum meira en verðmæti Citigroup.

Þetta kemur fram í Hálffimm fréttum Kaupþings.

Þá kemur fram að Bank of America er verðmætasti banki Bandaríkjanna en markaðsverðmæti hans er 156 milljarðar Bandaríkjadala en þar á eftir kemur JP Morgan Chase en markaðsverðmæti hans er 142 milljarðar dala.

Þá vísar Greiningardeild Kaupþings á fréttaveituna Bloomberg sem bendir á að fyrir aðeins tveimur árum var markaðsvirði Citigroup 240 milljarðar Bandaríkjadala sem þá var tvöfalt markaðsvirði Wells Fargo.

Hlutabréf í Citigroup hafa síðan fallið um 61% en aðeins um 11% í tilviki Wells Fargo. Þótt Wells Fargo sé orðið verðmætara en Citigroup að markaðsvirði eru heildareignir bankans aðeins fjórðungur af eignum Citigroup.

Forðast áhættusöm lán

Greiningardeild Kaupþings segir Wells Fargo hafa siglt ágætlega í gegnum hafrótið á fjármálamörkuðum þar sem bankinn hefur, þrátt fyrir mikil umsvif á bandarískum fasteignalánamarkaði, forðast áhættumestu húsnæðislánin og aukið hreinar rekstrartekjur og arðgreiðslur til hluthafa á milli ára.

„Hagnaður hefur að vísu dregist saman en þó ekkert í líkingu við það sem önnur bandarísk fjármálafyrirtæki hafa horft upp á eins og t.d. Citigroup sem hefur tapað yfir 17 milljörðum Bandaríkjadala á síðustu þremur ársfjórðungum,“ segir í Hálffimm fréttum.