Nýr Wembley, þjóðarleikvangur Englendinga, átti samkvæmt upphaflegri áætlun að vera tilbúinn í ágúst 2005. Síðan þá hafa verið settar nokkrar tímaáætlanir, en engin þeirra staðist. Ekki sér fyrir endann á framkvæmdum, en fyrirtækin sem sjá um þær hafa skipst um að kenna hvort öðru um tafirnar á opinberum vettvangi síðastliðið ár.

Þar er um að ræða ástralska verktakafyrirtækið Multiplex og fyrirtækið Wembley National Stadium Ltd. (WNSL), sem er undirfélag Enska knattspyrnusambandsins og eigandi leikvangsins. WNSL hefur t.a.m. þurft að láta rífa upp gólf sem Multiplex hafði lagt, til að koma fyrir lögnum sem gleymdist að gera ráð fyrir.

Multiplex, sem er með höfuðstöðvar í Sydney í Ástralíu, sendi hluthöfum og áströlsku kauphöllinni tilkynningu um stöðu mála 1. ágúst, fyrir rúmri viku. Í henni sagði Multiplex að leikvangurinn væri "að miklu leyti tilbúinn", en sakaði WSNL um að valda töfum með því að hefjast ekki handa við þær framkvæmdir sem undir félagið heyrðu. Þá sagði að ólíklegt væri að mannvirkið yrði tilbúið fyrir allsherjarprufu fyrr en í júní 2007. WSNL svaraði með fréttatilkynningu, þar sem sökin var sögð öll Multiplex megin.

Hvað er "tilbúinn til notkunar"?

Deila fyrirtækjanna snýst að miklu leyti um túlkun á hugtakinu "tilbúinn til notkunar" (e. "practical completion", "PC") og hvað eigi að gerast þegar þeim áfanga verði náð. Deilur af þessu tagi eru algengar í byggingariðnaðinum og leiða oft til málaferla.

Multiplex segist í raun geta "afhent lyklana og gengið í burtu," þegar "PC" er náð, en í framkvæmd mun fyrirtækið þurfa að vinna með WNSL þar til hægt er að halda 90.000 gesta atburð á leikvanginum -- þá er hann tilbúinn til notkunar. Talsmaður Multiplex segir: "Það er alveg ljóst í okkar huga hvað "PC" þýðir: Það er þegar Brent ráðið (sveitarfélagið) segir að [leikvangurinn sé] tilbúinn fyrir 90.000 gesta viðburð. Það verður hann hins vegar ekki fyrr en hann virkar sem skyldi og tilskildum öryggisstöðlum hefur verið náð."

Forstjóri WNSL, Michael Cunnah, segir hins vegar að skilgreining Multiplex sé röng. "Multiplex hefur af ráðnum hug ruglað saman tveimur mikilvægum áföngum. Fyrirtækinu er skylt að afhenda WSNAL fullgerðan leikvang sem er skilgreindur í samningnum sem "PC"," segir hann. "WNSL verður síðan að vinna með Multiplex við að leggja lokahönd á ýmis verk og framkvæma hinar ýmsu prófanir, sem munu gera kleift að fá tilskilin öryggisvottorð, svo leikvangurinn verði algjörlega tilbúinn fyrir notkun. Á þeim tímapunkti er fullgerður leikvangur afhentur, tilbúinn fyrir atburði með allt að 90.000 gestum."

Byrjað að rífa upp fullgerð gólf

Deiluaðilar eru sammála um að WSNL muni þurfa að ljúka við ákveðin verkefni (e. "client works"), en ekki um mikilvægi þeirra. Samkvæmt samningi fyrirtækjanna eru þetta verkefni sem nauðsynleg eru svo WSNL geti t.a.m. sett upp fjarskiptamiðstöð og eftirlitsmyndavélar. WSNL heldur því fram að þetta séu fremur auðveld verk, sem hægur vandi ætti að vera að ljúka á tveimur eða þremur mánuðum eftir að fyrirtækið fær leikvanginn afhentan, en Multiplex segir að afar mikilvægt sé að þeim verði lokið áður en afhending fer fram. Multiplex segir að með því að klára ekki þessi verk grafi WSNL undan öllu verkefninu.

Vegna þessa er nú byrjað að rífa upp heilu gólfin, sem Multiplex hafði gengið frá, svo WSNL geti komið fyrir lögnum. "WSNL hefur getað hafist handa við þessi verk í nokkra mánuði, en það hefur ekki enn gerst," segir talsmaður Multiplex.

Talið er líklegt að deilur fyrirtækjanna endi fyrir dómstólum og tvísýnt hvort úrslitaleikur ensku bikarkeppninnar næsta vor verði háður á leikvanginum, eins og stefnt hefur verið að.