Milestone-mál sérstaks saksóknara gegn þeim Karli og Steingrími Wernersonum og Guðmundi Ólasyni vegna kaupa Milestone á hlutabréfum Ingunnar Wernersdóttur verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 3. september næstkomandi. Endurskoðendunum Hrafnhildi Fanngeirsdóttur, Margréti Guðjónsdóttur og Sigurþóri Charles Guðmundssyni er jafnframt stefnt í sama máli en þeim er gert að sök að hafa framið meiri háttar brot gegn lögum um ársreikninga og lögum um endurskoðendur í störfum sínum við endurskoðun ársreikninga Milestone og samstæðureikninga Milestone samstæðunnar fyrir árin 2006 og 2007.

Í ákærunni segir að Margrét og Sigurþór hafi án athugasemda áritað samstæðureikning Milestone fyrir árin 2006 og 2007 þrátt fyrir að í efnahagsreikningi væri færð til eignar krafa á Milestone Import Export upp á samtals 7,9 milljarða króna. Engin gögn eru sögð hafa sýnt fram á tilvist kröfunnar eða reynt að meta virði hennar með áreiðanlegum hætti.

Endurskoðendurnir þrír eru jafnframt sagði hafa bætt inn í endurskoðunarmöppu lánssamningi milli Milestone og Milestone Import Export og gögnum eftir að endurskoðun á ársreikningi Milestone lauk. Með þessari háttsemi hafi þau m.a. látið líta svo út að samningurinn hafi verið til staðar við samningu og endurskoðun ársreikninga.