*

miðvikudagur, 27. maí 2020
Erlent 27. mars 2011 08:34

West Ham tapaði 3,9 milljörðum í fyrra

ALMC, sem hét áður Straumur, á enn um 35% hlut í West Ham United.

Þórður Snær Júlíusson
Sullivan og Gold keyptu saman ráðandi hlut í West Ham af ALMC í janúar í fyrra.

WH Holding Ltd., móðurfélag West Ham, tapaði 20,6 milljónum punda, um 3,9 milljörðum króna, á síðasta rekstrarári. Athafnamennirnir David Gold og David Sullivan keyptu meirihluta í West Ham af Straumi fjárfestingarbanka í janúar 2010 en Straumur hafði yfirtekið félagið vegna lána sem bankinn hafði veitt Björgólfi Guðmundssyni til að kaupa það. Tapið er töluvert meira en árið áður þegar West Ham tapaði rétt rúmlega 3 milljörðum króna. ALMC, eignaumsýslufélag utan um eignir Straums, á enn 35% hlut í West Ham.

Mikið tap eftir kaup Íslendinga

Skuldir West Ham námu 32,9 milljónum punda, um 6,1 milljarði króna, í lok síðasta tímabils. Reikningsárið áður voru þær 44,9 milljónir punda, 8,3 milljarðar króna, og lækkuðu um fjórðung á milli ára. Ástæðan er fjárframlag nýrra eigenda. Á meðal viðskiptabanka félagsins eru tilgreindir ALMC og Glitnir banki.

ALMC eignaðist hlut sinn í West Ham eftir að hafa leyst hann til sín vegna lána til Björgólfs Guðmundssonar, sem keypti félagið árið 2006. West Ham hefur tapað miklum fjárhæðum allan þann tíma sem liðinn er síðan Íslendingarnir komu að félaginu. Frá tímabilinu 2006/2007 er samanlagt tap félagsins 96,2 milljónir punda, um 17,8 milljarðar króna.

CB Holding, félagið sem ALMC á eignarhluta sinn í West Ham í gegnum, tapaði 2,9 milljónum punda, 536 milljónum króna, á síðasta ári. Fimm aðrir aðilar eiga hlut í félaginu en ALMC er langstærsti eigandinn með 69% eignahlut. Eignahluturinn í West Ham er bókfærður á 35,2 milljónir punda, 6,5 milljarða króna, og er eina eign félagsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.

Stikkorð: Straumur ALMC West Ham