Fyrirtækið Western Digital, stærsti framleiðandi harðra diska í tölvur, hefur keypt þann hluta Hitachi sem framleiðir sömu vörur og Western. Kaupverð er 4,3 milljarðar dala. Greitt er með peningum og hlutabréfum. Kaupin eru liður í að draga úr kostnaði og bregðast við minnkandi eftirspurn á markaði.

Alls greiðir Western Digital 3,5 milljarða dala í beinhörðum peningum, samkvæmt frétt Bloomberg. Eins og áður segir er Western Digital stærsti framleiðandi harðra diska. Hitachi er sá þriðji stærsti. Með vaxandi vinsældum spjaldtölva og annarra minni tölva hefur eftirspurn eftir vörum félaganna farið minnkandi, en slíkar tölvur nota annarskonar geymslubúnað.

Hlutabréfaverð í Western Digital hafa hækkað um 17% í kauphöllinni í New York í dag en hafði fyrir daginn í dag lækkað um 11% það sem af er þessu ári.