*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Erlent 12. október 2019 11:05

WeWork í vanda statt

Líklega hefur engin skráningarlýsing valdið einu fyrirtæki jafn miklum vandræðum og WeWork.

Ástgeir Ólafsson
Verðmæti WeWork hefur farið úr 47 milljörðum dollara í byrjun árs yfir í að vera lægra en það fjármagn sem fjárfestar hafa lagt því til
epa

Í lok síðasta mánaðar var greint frá því að bandaríska fyrirtækið WeWork hefði fallið frá áformum um hlutafjárútboð og skráningu á hlutabréfamarkað vestanhafs einungis einum og hálfum mánuði frá því að skráningarlýsing fyrirtækisins var birt. Útboðinu var ætlað að safna 3–4 milljörðum dollara sem myndi veita fyrirtækinu aðgang að lánsfjármagni upp á 6 milljarða dollara.

WeWork sem hefur viljað skilgreina sig sem tækniog frumkvöðlafyrirtæki en virðist þó vera lítið annað en venjulegt fasteignafélag sem leigir út skrifstofuaðstöðu og sameiginleg vinnusvæði, hefur frá því að skráningarlýsingin birtist átt í vægast sagt miklum vandræðum. Hafa þau meðal annars leitt til þess að stofnanda og forstjóra fyrirtækisins var vikið úr starfi auk þess sem félagið hefur farið úr því að vera metið á 47 milljarða dollara í byrjun ársins yfir í að skortstöður á skuldir félagsins hafa aldrei verið meiri.

WeWork var stofnað árið 2010 af fyrrverandi ísraelska sjóliðanum Adam Neumann og Bandaríkjamanninum Miguel McKelvey. Eins og áður segir gengur starfsemi fyrirtækisins í einföldu máli út á að leigja skrifstofuhúsnæði í byggingum, setja það upp í minni einingar og leigja það svo út til einstaklinga, sprotafyrirtækja og annarra fyrirtækja til skemmri tíma og opnaði fyrirtækið sína fyrstu vinnuaðstöðu í SoHo-hverfinu í New York árið 2010.

Á næstu árum tók fyrirtækið að vaxa umtalsvert og í byrjun árs 2015 bauð það upp á vinnuaðstöðu á 52 stöðum í Bandaríkjunum, Evrópu og í Ísrael. WeWork var á þeim tíma metið á um 5 milljarða dollara og á meðal fjárfesta voru meðal annars JP Morgan Chase, Wellington Management, Goldman Sachs og T. Rowe Price. 

Ári seinna voru skrifstofurými WeWork orðin yfir 100 talsins og í október hafði fyrirtækið safnað fjármagni frá fjárfestum upp á 1,7 milljarða dollara og hljóðaði verðmæti þess á um tífalda þá upphæð. Ári seinna voru rýmin orðin um 130 talsins og í ágúst það ári hljóðaði verðmat fyrirtækisins upp á ríflega 20 milljarða dollara eftir 500 milljóna dollara fjárfestingu frá japanska fjárfestingabankanum SoftBank. Það tók Naumann raunar aðeins um 30 mínútur að sannfæra Masayoshi Son, forstjóra SoftBank, um að fjárfesta í fyrirtækinu þegar þeir hittust fyrst árið 2016 en fjárfestingunni var meðal annars ætlað að styðja undir vöxt WeWork í Asíu.

Í janúar á þessu ári rauk verðmæti WeWork svo upp í 47 milljarða dollara þegar SoftBank bætti 2 milljörðum dollara við fjárfestingu sína. Óhætt er að segja að WeWork hafi vaxið gífurlega á þeim níu árum frá því að fyrirtækið var stofnað. Skrifstofurými fyrirtækisins eru nú orðin 837 talsins í 125 borgum í öllum heimsálfum auk þess sem starfsmenn eru yfir 12.000 talsins.

Skapandi bókhald

Segja má að vandræði WeWork hafi hafist um leið og skráningarlýsing þess var birt 14. ágúst síðastliðinn en töluverð leynd hafði verið yfir rekstri fyrirtækisins fram að því. Fyrir það fyrsta kom í ljós að fyrirtækið var langt frá því að vera arðbært þrátt fyrir mikinn vöxt. Tap WeWork á síðasta ári nam um 1,9 milljörðum dollara á meðan tekjur þess námu 1,8 milljörðum. Tapaði fyrirtækið því um 219.000 dollurum á hverjum klukkutíma síðasta árs. Ekki hafði rekstrarniðurstaðan skánað mikið á fyrri helmingi þessa árs en tapið á tímabilinu nam 904 milljónum dollara þrátt fyrir að tekjur hefðu tvöfaldast í 1,54 milljarða dollara.

Þá virtist sem einnig sem viðskiptalíkan fyrirtækisins væri nánast byggt á sandi. Skuldbindingar til leigusala námu 47 milljörðum dollara á meðan tryggðar tekjur voru einungis um 4 milljarðar dollara. Þá hefur fyrirtækið verið sakað um svokallað skapandi bókhald enda hefur fyrirtækið átt heiðurinn að hinni skemmtilegu kennitölu „samfélagslega aðlöguð EBITDA“ sem er hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir og fyrir rekstarkostnað á samfélagsstigi en segja má að sá liður nái í raun utan um nær alla kostnaðarliði fyrirtækisins allt frá leigugjöldum til internets. Fyrirtækið hefur að vísu breytt nafni kennitölunnar í framlagsframlegð (e. contribution margin) sem eftir sem áður virðist gegna því hlutverki að villa um fyrir fjárfestum um stöðu grunnreksturs.

Þá hefur fyrirtækið lítið sagt um hvernig það ætli sér að skila arðbærum rekstri. Í stað þess segir í skráningarlýsingunni að fyrirtækið eigi sögu af taprekstri og að haldi vöxtur áfram á sama hraða gæti farið svo að arðbær rekstur muni ekki nást í fyrirsjáanlegri framtíð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: WeWork