Samskiptaforritið WhatsApp hefur verið sektað um 225 milljónir evra, eða um 34 milljarða króna, fyrir að brjóta persónuverndarlög Evrópusambandsins (ESB) með því að gera notendum ekki vart um hvernig fyrirtækið deilir gögnum með móðurfélagi sínu Facebook.

Írska persónuverndareftirlitið ákvað að leggja fjórfalt hærri sekt en stofnunin hafði upphaflega lagt upp með, í kjölfar þrýstings frá öðrum Evrópuþjóðum, að því er kemur fram í frétt Financial Times .

Úrskurðurinn fylgir tveggja ára rannsókn stofnunarinnar. Írsk stjórnvöld höfðu skipað WhatsApp í Írlandi að aðlaga gagnmiðluninni til Facebook að GDPR, reglugerð ESB um persónuvernd. WhatsApp var gagnrýnt harðlega fyrr í ár fyrir að krefjast þess að notendur samþykki skilmála um að deila persónuupplýsingum, þar á meðal símanúmerum, með Facebook.

WhatsApp hefur lýst yfir ónægju sinni með sektina og segist ætla að áfrýja dómnum.

Um er að ræða eina stærstu sekt sem við kemur GDPR (General Data Protection Regulation) reglugerðinni sem ESB innleiddi árið 2018. Metið á þó Amaxon sem var sektað af Lúxemborg um 746 milljónir evra, eða um 112,7 milljarða króna, í júlí fyrir brot á reglugerðinni. Twitter var einnig sektað í desember um 450 milljónir evra, jafnvirði 68 milljörðum króna miðað við núverandi gegni, fyrir að upplýsa stjórnvöld ekki um gagnaleka innan 72 klukkustunda.