Breska te- og kaffiverslunin Whittard of Chelsea, sem er í eigu Baugs frá árinu 2005, hefur nú verið selt einkafjárfestingasjóðnum Epic.

Í gær var félagið tekið yfir af endurskoðunarfyrirtækinu Ernst & Young eftir að hafa lent í miklum greiðsluerfiðleikum. Venjan er sú í Bretlandi að endurskoðunarfyrirtæki taka gjarnan yfir rekstur félaga og veita þeim tilsjón áður en farið er í greiðslustöðvun.

Í tilkynningu frá Ernst & Young kemur fram að verslanir Whittard of Chelsea munu áfram vera opnar en þær eru um 130 talsins og hjá félaginu starfa um 950 manns.

Þá er kaupverðið ekki gefið upp en í frétt breska blaðsins The Daily Telegraph hefur blaðið eftir heimildarmönnum sínum að Epic hafi verið reiðubúið að greiða á milli 1 – 2 milljón Sterlingspund fyrir verslunina.

Baugur greiddi á sínum tima, árið 2005, um 21,5 milljón pund fyrir verslunina en sala verslunarinnar hefur verið dræm undanfarin misseri að sögn Telegraph.