„Þetta er flott,“ segir Jón Ólafsson, forstjóri og stjórnarformaður vatnsfyrirtækisins Icelandic Water Holdings, í skeyti til Viðskiptablaðsins i tilefni af því að bandaríska stórverslunin Whole Foods hefur tekið til sölu flöskuvatn fyrirtækisins undir merkjum Icelandic Glacial. Fram kemur í tilkynningu frá fyrirtæki Jóns að vatnið verði fáanlegt í verslunum Whole Foods í Kaliforníu, Oregon, Washington-ríki, Arizona, Nevada og á Havaí. Hægt verður að kaupa bæði vatn í hálfs líters flöskum og í eins líters flöskum. Í tilkynningu fyrirtækisins segir að þetta sé mikilvægur áfangi. Þar er líka haft eftir Jóni að vatnsfyrirtækið eigi það sammerkt með Whole Foods að bjóða upp á heilsusamlega vöru.

Vatninu á flöskum Icelandic Glacial er tappað á flöskur í verksmiðju fyrirtækisins í landi Hlíðarenda austur í Ölfusi og er það þaðan flutt víða um heim, þar á meðal til Asíu og Bandaríkjanna. Þá er vatnið jafnframt notað í snyrtivörur Dior. Jón og Kristján sonur hans eru helstu hluthafar vatnsfyrirtækisins ásamt bandaríska drykkjavörurisanum Anheuser-Busch sem á stóran hlut í því.