*

föstudagur, 29. maí 2020
Innlent 9. júlí 2019 10:30

Wikileaks með 6 milljarða í Bitcoin

Framlög í rafmyntinni til samtakanna jukust mikið í kjölfar handtöku Julian Assange.

Ritstjórn
Stjórnvöld í Equador héldu lengi hlífiskyldi yfir Julian Assange stofnanda Wikileaks í sendiráði landsins í Lundúnum.

Samtök Julian Assange, sem hantekinn var við sendiráð Equador í apríl síðastliðnum, gætu mögulega setið á andvirði nærri 6 milljarða króna í rafmyntinni Bitcoin.

Virðist sem opinber Bitcoin reikningur samtakanna hafi fengið um 4.054 Bitcoin í framlög, þar af andvirði 30 þúsund dala, eða tæplega 4 milljóna króna á nokkrum vikum í kjölfar handtökunnar. Samtökin voru einna fyrst til að byrja að nota rafmyntina.

Þannig virðast framlögin hafa meira en tífaldast, eða úr um 0,006 Bitcoin, andvirði um 312 dala, eða 40 þúsund króna fyrr í apríl á dag, upp í 0,87 Bitcoin, eða 4.500 dali, sem samsvarar um 570 þúsund íslenskum krónum, á dag síðan handtakan var gerð.

Heildarframlög til samtakanna árið 2016 námu 22 milljónum dala, eða 2,8 milljörðum íslenskra króna miðað við núverandi gengi. En í heildina virðist sem samtökin hafi fengið andvirði 46 milljón dala inn á reikning sinn, eða sem samsvarar rúmlega 5,8 milljörðum íslenskra króna.

Þó er ekki vitað hve mikið af fénu er enn á reikningi samtakanna sem hafa lagt upp með að birta leynilegar upplýsingar í óþökk fjölmargra ríkisstjórna, því ljóst er að Assange mun þurfa að standa undir miklum lögfræðilegum kostnaði að því er Bitcoinexchangeguide segir frá.

Er honum gefið að sök að hafa bæði áreitt konur kynferðislega í Svíþjóð sem og að hafa brotist inn í tölvur í Bandaríkjunum vegna uppljóstrana hermannsins Chelsea Manning, áður Bradley Edward Manning.

Stikkorð: Wikileaks Julian Assange Bitcoin