Alfræðiorðabókin á netinu, Wikipedia, fær rúmlega 374 milljón heimsóknir á hverjum mánuði. Vefsíðan, sem flestir ef ekki allir kannast við, er nú orðin 15 ára gömul.

Það voru Jimmy Wales og Larry Sanger sem gerðu síðuna fyrst aðgengilega þann 15. janúar 2001. Sanger átti heiðurinn af því að nefna síðuna - en nafnið er samtjónkun af orðunum 'wiki' og 'encyclopedia' eða alfræðiorðabók.

Orðið ' wiki ' er eins konar stytting á orðinu 'WikiWikiWeb', sem var fyrsta vefsíða wiki-tegundar - sem þýðir einfaldlega að hægt sé að vinna hana, bæta og uppfæra í krafti fjöldans. Á havaísku þýðir orðið 'fljótt' eða 'snöggur'.

Wikipedia hefur oft verið gagnrýnd fyrir að hver sem er geti breytt henni og bætt við gögnum í greinar, en aðrir segja að það sé einmitt styrkleiki vefsíðunnar. Vegna þess hve margir notendur skrifa og lesa síðuna er hún sífellt í yfirlestri, sem tryggir að heimildir séu gagnrýndar og endurbættar.

Það er skemmtilegt meta-ævintýri að lesa Wikipedia-greinina um Wikipedia, en í tilefni dagsins er tilvalið að glugga nánar í hana - hér.