Niðurstaða þingkosninganna í Grikklandi um síðustu helgi eykur líkurnar á því að landið kasti evrunni fyrir róða og taki hugsanlega drökmuna upp sem þjóðargjaldmiðil á nýjan leik. Þetta segir hollenski hagfræðingurinn William Buiter, aðalhagfræðingur hjá bandaríska bankanum Citigroup í London. Hann telur 75% líkur á að þetta verði raunin.

Buiter ætti að vera landsmönnum góðu kunnur en hann skrifaði ásamt konu sinni Anne Sibert, sem sat í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands þar til fyrir stuttu, fræga skýrslu um arfaslæma stöðu Landsbankans sumarið 2008. Efni skýrslunnar þótti svo neikvætt að henni var stungið undir stól.

Buiter segir drökmuna hagstæðari kost fyrir Grikki en evruna. Ferðaþjónustan myndi hagnast á því, ekki síst ef drökmunni verður skipt inn á á hagstæðu gengi. Þá telur hann að laun muni hækka en það auki neyslu og komi hagvexti í gang á nýjan leik.

Í mati Buiter á Grikkklandi, sem bandaríska fréttastofan CNN fjallar um í dag, segir að lítill stuðningur grískra kjósenda við helstu flokka endurspegli óánægju þeirra með þær aðhaldsaðgerðir og niðurskurð sem þjóðin hefur verið þvinguð til að taka á sig svo landið geti staðið við alþjóðlegar skuldbindingar sínar.

Í mati Buiter segir ennfremur að niðurstaða kosninganna setji í háaloft næsta skammt af lánum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, evrópska seðlabankans og Evrópusambandsins. Grísk stjórnvöld hafa gert ráð fyrir að fá 31 milljarð evra að láni á þessum ársfjórðungi. Skli lánið sér ekki í hús þykja líkur á að hópur kröfuhafa gríska ríkisins muni standa í vegi fyrir lánveitingunni. Verði það raunin getur gríska ríkið ekki staðið við skuldbindingar sínar.

„Grikklandi verður ekki ýtt út, en það gæti gengið úr [myntbandalaginu],“ segir Buiter.