Danski sjóðurinn William Demant Invest, helsti hluthafi í stoðtækjafyrirtækinu Össuri, ákvað í dag að gera valfrjálst tilboð í hlutabréf félagsins. Tilboðið hljóðar upp á 202 íslenskar krónur á hlut eða 8,2 danskar krónur. Gengi hlutabréfa Össurar hefur hækkað um tæp 3% í Kauphöllinni í dag og stendur nú í 208 krónum á hlut. Það hefur stendur í 8,65 dönskum krónum á hlut ytra.

Fram kemur í tilkynningu um málið að engar fyrirætlanir séu um yfirtöku Össurar eða afskráningu félagsins. Það sé lagt fram af tæknilegum ástæðum sökum þess að sjóðurinn vilji njóta sveigjanleika sem ráðandi hluthafi í Össuri. Þá segir í tilkynningunni að hluthafar Össurar verða hvorki hvattir né þvingaðir til að selja hlutabréf sín.

Tæknilegar ástæður að baki tilboðinu

Hlutabréf Össurar eru skráð bæði í kauphöllina í Kaupmannahöfn og Kauphöll Íslands. . Vegna skráningarinnar á Íslandi og þar sem Össur er með höfuðstöðvar á Íslandi þá gilda íslenskar yfirtökureglur. Óvissa ríkir um hvort William Demant sé skylt til yfirtöku ef það eykur hlut sinn í Össuri umfram 39,88%, sem var hlutafjáreign félagsins 1. apríl árið 2009.

Tilboðið er að því er segir í tilkynningunni gert til að eyða óvissu varðandi mögulega yfirtökuskyldu. Þar sem skilmálar tilboðsins eru í samræmi við ákvæði yfirtökureglnanna um skylduboð er William Demant ekki skylt að kaupa ákveðinn lágmarksfjölda hluta í tilboðinu til að vera undanþegið yfirtökuskyldu síðar. Þannig tryggir tilboðið sveigjanleika sem ráðandi hluthafi í Össuri.

Þá segir að William Demant geri ráð fyrir að eignarhlutur þess í Össuri verði að jafnaði 40 til 50%.

Tilkynningu Kauphallarinnar má lesa nánar hér .