Danska fyrirtækið William Demant Invest (dótturfyrirtæki Oticon Foundation) hefur keypt 20 milljón hluti í Össuri hf. Fjárfestingin jafngildir 6,28% af heildarhlutafé fyrirtækisins, en kaupin fóru fram á genginu 55,5. Seljandi hlutanna er Mallard Holding SA, sem er í meirihlutaeigu Össurar Kristinssonar, stofnanda Össurar hf. Eftir söluna á Mallard Holding AS 18,7% hlut í Össuri hf.

Niels Jacobsen, stjórnarformaður William Demant Invest A/S sagði við þetta tilefni: ?Oticon Foundation hefur ákveðið að leggja umtalsvert fé í fyrirtæki með svipað viðskiptalíkan og uppbyggingu og helsta fjárfesting þess, William Demant Holding Group. Slíkar fjárfestingar eru hins vegar bundnar því skilyrði að þær séu í fyrirtækjum utan heyrnartækjaiðnaðarins. Meginstarfsemi Össurar hf ? sem felst í stoðtækja- og stuðningstækjaframleiðslu ? fellur vel að þessari stefnu, og við gerum ráð fyrir að um langtímafjárfestingu verði að ræða af okkar hálfu."

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, fagnar þessum nýja og öfluga hluthafa, William Demant Invest A/S. ?Stjórn og framkvæmdastjórn Össurar hf. er sönn ánægja að fá um borð þessa nafntoguðu dönsku fjárfesta, sem eiga rætur í viðskiptum á sviði heilbrigðistækni. Við erum stolt af því að Össur hf. hafi orðið fyrir valinu sem næsta lykilfjárfesting Oticon Foundation," er haft eftir Jóni í tilkynningu frá félaginu.

Staðreyndir um William Demant Invest

Fyrirtækið William Demant Invest A/S er alfarið í eigu fjárfestingarsjóðsins William Demants og Hustru Ida Emilies Fond (?Oticon Foundation"). Auk annarra fjárfestinga á sjóðurinn einnig meirihluta í heyrnartækjaframleiðandanum William Demant Holding A/S (www.demant.com), sem skráður er í dönsku kauphöllinni.