William Fall, forstjóri Straums, segir að orðrómur og fréttaflutningur þess efnis að Straumur hafi sniðgengið gjaldeyrislögin og yfirboðið gjaldeyri á síðustu vikum og mánuðum sé mikil vonbrigði.

„Hann er ekki byggður á staðreyndum heldur líklega á vanþekkingu á reglugerð Seðlabankans. Þetta eru fyrst og fremst vangaveltur hjá fjölmiðlum sem eru að reyna að búa til sögu úr því. Við höfum verið í reglulegu sambandi við Seðlabankann eftir að neyðarlögin voru sett og unnið náið með þeim í ýmsum málum. Við höfum verið virkir á gjaldeyrismarkaðinum og þess vegna höfum við veitt Seðlabankanum allar nauðsynlegar upplýsingar um það hvernig við högum þeim málum og munum halda því áfram.“

Þetta segir Fall í viðtali sem birtist í Viðskiptablaðinu á morgun.

Fall segir ýmis atriði spila inn í það hvers vegna bankinn hélt velli í ólgusjónum í október sl, þegar allir þrír viðskiptabankarnir hrundu. Þar spili viðskiptalíkan bankans lykilhlutverk, en stefnubreyting sem gerð var árið 2007 felur í sér að minnka áhættu og draga úr efnahagsreikningi Straums. Þeirri stefnu verður haldið áfram. Önnur ástæða þess að Straumur lifði af er sterkur eiginfjárgrunnur bankans, að sögn forstjórans.

Í viðtalinu tjáir Fall sig um efnahagshrunið á Íslandi og afleiðingar þess, en hann telur botninum hér á landi ekki enn náð. Hann segir það ekki fara á milli mála að íslensku bankarnir og margir erlendir bankar líka, hafi orðið of stórir á of skömmum tíma.

Aðspurður hvort Straumur hafi fjármagnað eigin hlutabréf segir William Fall: „Ein af ástæðum þess að við héldum velli er sú að við höfum aldrei komið nálægt því að fjármagna eigin hlutabréf eða notað eigin hlutabréf til að fjármagna okkur.“