William Fall, forstjóri Straums, sagði á blaðamannafundi sem lauk rétt í þessu að kaup fjárfestingabankans á þremur evrópskum dótturfélögum Landsbankans væri leið til þess að auka áhættudreifingu í rekstri Straums.

Segir hann að Straumur hafi með kaupunum nýtt tækifæri til að auka umsvif bankans verulega á þeim sviðum sem hann sérhæfir sig í: fjárfestingabankastarfsemi og verðbréfamiðlun.

Um ræðir kaup á þremur dótturfélögum Landsbankans; Straumur eignast Landsbanki Securities og Landsbanki Kepler að fullu, og 84% hlut í Merrion Landsbanki.

Kaupverðið er 380 milljón evrur, eða 58,3 milljarðar íslenskra króna á núverandi gengi. Kaupin eru fjármögnuð með lausu fé að upphæð 50 milljón evrur, sölu á lánum frá Straumi til Landsbankans að upphæð 100 milljónir evra og það sem eftir stendur með víkjandi láni.

Nánar verður fjallað um kaupin í Viðskiptablaðinu á morgun.