William Fall, forstjóri Straums, segir að sterk áhættustýring og heilindi hafi tryggt að engar færslur séu á efnahagsreikningi bankans sem séu skaðlegar fyrir orðspor hans. Þetta er meðal þess sem fram kemur í afkomutilkynningu sem Straumur birti í morgun.

Í tilkynningunni er ennfremur haft eftir Fall að sterk fjárhagsstaða bankans ásamt minni áhættu hafi komið honum í gegnum vaxandi erfiðleika ársins. Þessir þættir muni reynast vel í framtíðinni. CAD-hlutfallið sé tvöfalt meira en lögboðið lágmark.

Markmiðið sé að þróa fjárfestingarbanka með alþjóðlega útbreiðslu og hlutfallslega lítinn efnahagsreikning. Áherslan sé eftir sem áður ráðgjöf, miðlun og rannsóknir. Samþætting Teathers við Straum í London sé lokið að fullu með tilkomu rúmlega 70 nýrra viðskiptavina og sérstaklega styðji greiningardeild Teathers, með áherslu á meðstór fyrirtæki, vel við starfseimi bankans í öðrum löndum.

„Wood og Stamford Partners náðu einstaklega góðum árangri á árinu miðað við markaðsaðstæður og eQ hefur viðhaldið markaðshlutdeild sinni við erfið skilyrði,“ er haft eftir Fall.