© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Einn af bílum Williams-liðisins í Formúlunni.

Mál Wililams-liðsins í Formúlu 1-kappakstrinum gegn slitastjórn Glitnis verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Málið snýst um kaup Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, fyrrverandi forstjóri Baugs Group, á 10% hlut í formúluliðinu í byrjun árs 2008 með bankaábyrð frá Glitni. Kaupsamningurinn var háður því að Jón Ásgeir yrði fyrst einn af aðalstyrktaraðilum Williams-liðsins. Gengi það eftir gæti kaupsamningurinn orðið virkur í desember sama ár.

Nokkuð eftirsóknarvert þykir að eiga hlut í formúluliði. Þar á meðal eru fríðindin nokkur, svo sem aðgangur að VIP-svæðum og veisluhöld.

Jón Ásgeir bað stjórnendur Glitnis um að ábyrgjast greiðsluna til Wiliams-liðsins sem hljóðaði upp á 10,75 milljónir punda, jafnvirði rúmlega 2,1 milljarðs króna á núvirði.

Glitnir ábyrgðist greiðsluna

Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um kaupin í desember árið 2009. Í umfjöllun blaðsins sagði m.a. að á þessum tíma hafi stjórnendur Glitnis verið stressaðir yfir stöðunni á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og hver stefndi í fjármögnun bankans og væri búið að leggja línurnar um það hvernig ætti að mæta þeim erfiðleikum sem framundan væru. Þar á meðal átti ekki að lána Jóni Ásgeiri og félögum tengdum Baugi meira fé. Ákveðið hafi hins vegar að ábyrgjast greiðsluna. Lárus Welding, þáverandi bankastjóri hafi talað fyrir henni við æðstu stjórnendur en að öðru leyti hafi ábyrgðin farið lágt innan bankans.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Í stuttu máli seig á ógæfuhliðina eftir því sem leið á árið. Glitnir fór á hliðina í október árið 2008 með hinum bönkunum, FL Group fór sömu leið í kjölfarið og Baugur vorið eftir. Jón Ásgeir náði á endanum aldrei að efna samninginn við Williams-liðið. Stjórnendur félagsins lögðu fram kröfu í þrotabú Glitnis í kjölfarið.

Vinirnir Williams og Jón

Þeir Jón Ásgeir og Frank Willams, stofnandi og eigandi Williams-liðsins hafa þekkst um árabil. Breska leikfangaverslunin Hamleys sem Baugur Group átti hafði verið styrktaraðili formúlu-liðsins frá árinu 2004 og voru önnur Baugsfyrirtæki sömuleiðis bakhjarlar liðsins. Svo mikið virðist vinfengið þeirra á milli vera að Willams skrifaði í grein í Morgunblaðið í júlí árið 2005 til varnar Jóni Ásgeiri þegar Baugsmálið var í hámæli undir fyrirsögninni Traustur Íslendingur.

Í umfjöllun Viðskiptablaðsins fyrir að verða þremur árum kom fram að þeir Jón Ásgeir og Frank Williams hafi náð ákveðnum sáttum í málinu þótt reynt sé að sækja kröfuna til þrotabús Glitnis upp á rúma 2 milljarða króna. Ekki hefur orðið breyting á kröfunni síðan hún var lögð fram.

Umfjöllun Viðskiptablaðsins um Jón Ásgeir og Williams-liðið