Á meðan önnur lið í Formúlu 1 gefa upp öndina eða sækja aukið fjármagn til bílaframleiðenda vonast Williams til að geta rennt traustum stoðum undir liðið með hlutafjárútboði.

Eigendur formúlu 1 liðsins Williams íhuga nú að skrá liðið á markað. Frank Williams, eigandi og stjórnandi Williams, yrði þó áfram stærsti eigandinn ásamt Patrick Head, meðstofnanda liðsins.

Þetta hafði BBC eftir Adam Parr, stjórnarformanni Williams, í síðustu viku en Parr ítrekaði að skráningin uppfyllti ekki lausafjárþörf liðsins. Þess heldur væri skráning á markað liður í því að tryggja fjárhagslega afkomu liðsins til lengri tíma.

Eini sjálfstæði eigandinn

Fjármögnun Williams hefur gengið erfiðlega síðustu ár þrátt fyrir mikinn vilja Frank Williams til að halda liðinu gangandi. Eftir kreppuna 2008 hættu nokkur lið keppni í Formúlu 1 og önnur skáru verulega niður. Margir spáðu því að Williams myndi ekki lifa kreppuna af en liðið er þó enn starfrækt.

Það sem einkennir lið Williams frá öðrum liðum er að Williams er í einkaeigu ef svo má að orði komast, þ.e. það er ekki í eigu bílaframleiðanda. Þar af leiðir að Williams á gjarnan í meiri erfiðleikum en aðrir með að fjármagna sig.

Ekki útgönguleið

Williams átti lengi vel 65% hlut í félaginu á móti Patrick Head sem átti 35%. Árið 2009 seldu þeir hluta af félaginu til austurríska auðjöfursins Toto Wolff. Ekki var gefið upp hversu mikinn hlut Wolff keypti í félaginu en talið er að það hafi verið um 10% hlutur.

Um leið og tilkynnt var um mögulegt hlutafjárútboð fór af stað orðrómur um að Frank Williams hygðist setjast í helgan stein. Frank lamaðist fyrir neðan mitti eftir alvarlegt bílslys árið 1986 en hefur þó verið við góða heilsu. Hann verður sjötugur á næsta ári. Í samtali við BBC neitar Parr því staðfastlega að hlutafjárútboðið væri hugsað sem útgönguleið fyrir Frank Williams.

Saga Williams

Þótt gengi Williams-liðsins hafi ekki verið mjög gott á þessu ári og það hafi ekki unnið titil frá árinu 1997 er það til langs tíma eitt af stærstu liðum í Formúlu 1 kappakstrinum. Williamsliðið var hvað sterkast á 9. og 10. áratugum síðustu aldar. Liðið endaði í 6. sæti í keppni bílaframleiðenda á síðasta ári.

Frank Williams stofnaði Williams árið 1977, ásamt Patrick Head, eftir 10 ára undirbúning. Frank hafði þó átt tvö lið áður sem báðum gekk illa og hættu keppni. Árið 1979 vann Williams sinn fyrsta sigur í keppninni þegar Clay Regazzoni sigraði í Silverstone. Williams-liðið hefur frá stofnun unnið sjö heimsmeistaratitla og níu sinnum hefur liðið sigrað í keppni bílaframleiðenda. Bílstjórar liðsins eru í dag Brasilíumaðurinn Rubens Barrichello og Pastor Maldonado frá Venesúela.