Umhverfishópur á vegum Viðskiptaráðs, í samstarfi við Nasdaq, Festu og IcelandSIF með staðfestingu Staðlaráðs, hefur staðið að íslenskun svokallaðra UFS leiðbeininga (ESG Reporting Guide) við upplýsingagjöf fyrirtækja um starfshætti sína. Skammstöfunin stendur fyrir umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti, og er íslenskun á Environmental, social and governance.

Leiðbeiningarnar eiga rætur sínar að rekja til frumkvæðis Nasdaq Nordic kauphallarinnar á Norðurlöndum, en íslensk fyrirtæki voru meðal þeirra sem tóku þátt í þróun leiðbeininganna.

Geta ekki vænst þess að vaxa og dafna nema sýna ábyrgð
Guðmundur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri EFLU verkfræðistofu og formaður umhverfishópsins, segir fyrirtæki í dag ekki geta vænst þess að vaxa og dafna nema vera samfélagslega ábyrg og sjálfbær, í víðum skilningi. „Þetta er þróun sem er að eiga sér stað alþjóðlega, og kemur til ekki síst vegna mikilla breytinga í samfélagsumhverfinu og samfélagslegs þrýstings.“

Hann segir það skipta samfélagið öllu máli að atvinnulífið taki forystu og verði leiðandi í loftslagsmálum, og vinni þannig að kolefnisjöfnun og þeim markmiðum sem samfélög eru að setja sér. „Það er augljóst að atvinnulífið þarf að vera þar í leiðandi hlutverki.“

Guðmundur segir leiðbeiningarnar gera fyrirtækjum kleift að vinna skipulega að og birta það sem þau eru að gera í þessum málaflokkum með samræmdum hætti, sem auðveldi samanburð og skapi æskilega hvata fyrir þau til að gefa umhverfis- og sjálfbærnimálum gaum.

Hann leggur áherslu á að leiðarvísirinn sé ekki eitthvað sem fyrirtæki séu skuldbundin til að fara eftir, heldur leiðbeiningar við að feta þennan veg. „Þetta er samræmd umgjörð, þannig að þeir sem taka þátt geta áttað sig á hvernig þeir standa gagnvart öðrum, en þetta eru leiðbeiningar og þær eru ekki skuldbindandi. Þær eru einfaldlega stuðningur fyrir atvinnulífið við að taka til hendinni.

Það er alveg ljóst að fjárhagslegu þættirnir í rekstri fyrirtækja einir og sér eru ekki lengur það sem horft er til umfram allt annað. Auðvitað horfa menn alltaf á þá, en fyrirtæki verða einnig að geta sýnt fram á að þau séu að virða þá þætti sem snúa að samfélagslegri ábyrgð og sjálfbærni samhliða ásættanlegri fjárhagslegri afkomu. Það er ekki nóg að horfa bara á tölurnar ef rauð ljós blikka á öðrum sviðum. Með heilsteyptri starfsemi verða fyrirtæki einnig meira aðlaðandi sem fjárfestingarkostir.“

Hentar fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum
Guðmundur segir það ekki þannig að fyrirtæki geri þetta nauðug viljug vegna þrýstings. „Þetta eru allt atriði sem hjálpa fyrirtækjunum áfram í sinni starfsemi og bæta reksturinn. Þetta er í raun ‚win-win‘ fyrir fyrirtækin og umhverfið.“ Ekki aðeins fyrirtæki skráð á markaði hafi séð sér hag í að fara þessa leið, heldur fyrirtæki almennt. „Þessi leiðarvísir hentar öllum fyrirtækjum sem vilja virða þessa samfélagslegu ábyrgð og sjálfbærni, og vinna að og birta það sem þau eru að gera á staðlaðan hátt.“

Umhverfishópur Viðskiptaráðs – sem hefur ekki fjallað mikið um umhverfismál í gegnum tíðina – var settur á laggirnar í fyrra vegna augljóss mikilvægis málaflokksins að sögn Guðmundar, en hann fjallar ekki bara um umhverfismálin, heldur einnig samfélagslega ábyrgð í víðara samhengi. „Viðskiptaráð, og umhverfishópurinn á þess vegum, fóru að velta fyrir sér hvernig best væri að virkja samtakamátt atvinnulífsins. Eitt skref á þeirri leið er þýðing þessara leiðbeininga til að gera þær sýnilegri og aðgengilegri fyrir íslenska markaðinn. Með því viljum við hafa frumkvæði í því að vera leiðbeinandi fyrir atvinnulífið, svo það geti unnið að þessu í sameiningu, og teljum hér vera kominn góðan farveg til þess.“

Þótt betur megi ef duga skal segir Guðmundur atvinnulífið ekki hafa setið með hendur í skauti hvað varðar umhverfismál hingað til. „Fyrirtæki í dag hafa tekið gríðarlegt frumkvæði og sýna mikla ábyrgð þegar kemur að umhverfismálum. Víða hefur mikill árangur náðst, og verður þýðing UFS leiðbeininganna örugglega hvatning til enn frekari dáða.“

Nánar er fjallað um málið í sérblaði um Viðskiptaþing sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .