Windows 7, nýjasta stýrikerfi Microsoft, verður gefið út á morgun, 22. október en í tilkynningu frá Microsoft á Íslandi kemur fram að vegna mikillar eftirvæntingar hafi ekki tekist að afgreiða allar pantanir verslana í Evrópu í tæka tíð fyrir útgáfudag.

Þetta þýðir m.a. að verslanir á Íslandi munu hafa mjög takmarkað magn af Windows 7 pökkum til sölu á útgáfudaginn. Fram kemur að búist er við því að íslenskar verslanir muni hafa nægan fjölda svokallaðra OEM-útgáfa stýrikerfisins, þ.e. útgáfa sem fylgja með nýjum tölvum, til að anna eftirspurn morgundagsins, en mjög litlar birgðir séu hins vegar til af stökum Windows 7 pökkum.

Fleiri sendingar eru á leiðinni til landsins og munu þær væntanlega berast í verslanir í næstu viku.