Þann 15. mars næstkomandi mun Microsoft loka á notkun Windows Live Messenger. Microsoft hefur tilkynnt um dagsetninguna með tölvupósti til notenda samskiptaforritsins.

Microsoft boðaði lokun í nóvember á síðasta ári en forritið var um margra ára skeið vinsælasta forritið til þess að hafa bein samskipti á netinu. Nú vill Microsoft færa notendur á Skype, sem Microsoft eignaðist í október árið 2011.

Síðustu mánuði hafa notendur Messenger getað tengt sig við notendur Skype en frá og með 15. mars verður ekki hægt að tengjast Messenger forritinu. Til þess að aðstoða notendur við breytingarnar hefur Microsoft bætt við uppfærsluhnappi á Messenger sem fjarlægir forritið af tölvunni og nær í Skype.