Þeir fjárfestar sem tóku þátt í hlutafjárútboði Facebook gátu fyrst í gær hafið sölu á hlutabréfunum sínum en þá rann út bann á viðskiptum með hlutabréfin.

Tveir mest áberandi hluthafar Facebook, á eftir Mark Zuckerberg þ.e.a.s., eru Winklevoss-tvíburarnir. Þeir eru þekktastir fyrir deilur sínar við Zuckerberg en þeir hafa sakað hann um að hafa stolið hugmyndinni að Facebook. Deilunum lauk árið 2008 þegar Zuckerberg samþykkti að greiða tvíburunum 65 milljónir dollara - 20 milljónir dollara í reiðufé og 45 milljónir dollara í hlutabréfum.

Samanlagt virði hluta tvíburanna í Facebook er um 134 milljónir dollara eða um 17,4 milljarðar króna.

Tvíburarnir eru sagðir aðeins ætla að selja 1 milljón dollara virði af hlutabréfum sínum til  þess að fjármagna nýjasta verkefnið sitt, verslunarsíðuna hukkster.com. Síðan hjálpar fólki að fylgjast með vissum vörum á netinu og lætur viðkomandi vita þegar verðið á vörunum lækkar.