Flutningaskipið Winter Bay lagði af stað til frá Tromsö í Noregi til Osaka í Japan með 1.700 tonn af íslensku hvalkjöti fyrir þremur dögum síðan. Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, segir í samtali við Morgunblaðið að áætlað sé að skipið komi á áfangastað í fyrri hluta septembermánaðar.

Skipið mun sigla um Norður Íshaf í fyrstu en svo er leiðinni heitið norður fyrir Rússland. „Það er allt að þiðna mjög hratt þarna,“ segir Kristján við Morgunblaðið. Segir hann að förin ætti að ganga greiðlega. „Rússarnir sjá um allt eftirlit. Skipið fer ekki neitt nema það sé búið undir þær aðstæður sem eru þarna,“ segir hann.

Gangi áformin um sigilingu norður fyrir Rússland eftir styttir það leiðina sem sigla þarf um 14.800 kílómetra miðað við að farið sé suður fyrir Góðrarvonarhöfða.