Wise hefur fest kaup á ráðgjafafyrirtækinu Clarito sem hefur sérhæft sig í stjórnun viðskiptatengsla með Microsoft viðskipta- og skýjalausnum.

Í fréttatilkynningu Wise segir að með kaupunum á Clarito felast mikil tækifæri til að auka enn frekar lausnaframboð fyrirtækisins. Clarito kemur inn með þekkingu og reynslu í Dynamics 365, Power Platform og Microsoft 365; lausnir sem eru stór hluti af nútíma fyrirtækjaumhverfi þar sem sjálfvirknivæðing, vinnuferlar og gagnanýting skipta höfuð máli. Einnig hefur Clarito mikla reynslu af greiningu vinnu- og verkferla, sem er undirstaðan að því að finna réttu leiðina fyrir viðskiptavini.

„Ég er mjög spenntur fyrir þessum breytingum því nú styrkjum við stöðu okkar á þessum markaði með því að bjóða breiðara vöruúrval Microsoft lausna. Við höfum átt í góðu samstarfi við Wise í gegnum árin sem einkennst hefur af fagmennsku og trausti“ segir Árni Haukur Árnason, eigandi Clarito í tilkynningu Wire.

Nú býður Wise upp á heildstæðari lausnir í Microsoft umhverfinu sem eflir enn frekar möguleika í ráðgjöf, þjálfun og þjónustu til viðskiptavina fyrirtækisins.

„Með þessu eflum við framboð lausna og þjónustu við viðskiptavini okkar hér heima sem og erlendis. Í breyttum heimi upplýsingatækninnar hafa kröfur viðskiptavina til þjónustuaðila aukist. Við viljum horfast í augu við áskoranir viðskiptavina okkar og hvernig við hjálpum þeim að leysa þær á sem bestan máta. Þá skiptir heildarmynd á viðskiptakerfum okkar öllu máli því þannig hjálpum við þeim að ná fram straumlínulöguðum og hagkvæmari rekstri“ er haft eftir Jóhannesi Helga Guðjónssyni, forstjóra Wise.