Hugbúnaðarfyrirtækið Wise og upplýsingatæknifyrirtækið Netheimur hafa sameinast um að klára samruna fyrirtækjanna undir merkjum Wise, samkvæmt fréttatilkynningu. Starfsmenn sameinaðs fyrirtækis verða nú 110 talsins. Wise mun því með sameiningunni við Netheim geta boðið upp á alhliða þjónustu á sviði upplýsingatækni, allt frá einstökum viðskiptalausnum til hýsingar og alrekstrar upplýsingatækni hjá öllum stærðum fyrirtækja.

Wise skipti um eigendur í upphafi síðasta árs þegar fyrirtæki í eigu Jónasar Hagan keypti meirihluta í fyrirtækinu. Wise, sem áður hét Maritech, hefur verið í rekstri sem endursöluaðili á Microsoft hugbúnaði og eigin sérlausnum í 26 ár. Á meðal eitt þúsund viðskiptavina Wise eru sveitarfélög, sjávarútvegs, fjármála-, framleiðslu-, verslunarfyrirtæki, og fyrirtæki í ýmis konar sérfræðiþjónustu.

Jónas Hagan stjórnarformaður og stærsti eigandi Wise segir að með sameiningunni verði til öflugt fyrirtæki á íslenskum markaði með sterka sögu og traust viðskiptasambönd sem býður nú upp á alhliða þjónustu í upplýsingatækni.

„Wise hefur vaxið og dafnað undanfarin ár og við ætlum okkur að halda áfram á þeirri vegferð að veita íslenskum fyrirtækjum framúrskarandi þjónustu með lausnum sem veita fyrirtækjum samkeppnisforskot. Starfsfólk Wise býr yfir gríðarlegri þekkingu og munum við byggja á þeirri þekkingu í áframhaldandi vexti. Að sjálfsögðu ætlum við okkur stóra hluti og sameiningin við Netheim er gott skref í þá átt” bætir Jónas við.

Við eigendaskipti hjá Wise fyrir um ári síðan tók Jóhannes Helgi Guðjónsson við sem forstjóri fyrirtækisins. Jóhannes hefur starfað í yfir tvo áratugi í upplýsingatækigeiranum og nú síðast sem CIO hjá Össuri.

„Það eru gríðarlega spennandi hlutir að gerast í upplýsingatækni í dag. Tækifærin eru mikil og með  sameiningu Wise og Netheims  verður til öflugt fyrirtæki sem býður fyrirtækjum upp  á alhliða þjónustu í upplýsingatækni. Við leggjum mikla áherslu á að þjónusta samstarfsaðila okkar vel með heildarlausnum og ætlum við að vera leiðandi í þeirri stafrænu umbreytingu sem á sér stað í rekstri fyrirtækja í dag, segir Jóhannes.

Netheimur var stofnað árið 1998 og hefur frá upphafi verið í eigu Ellert Kristjáns Stefánssonar og Guðmundar Inga Hjartarsonar. Netheimur hefur sérhæft sig í hýsingu og rekstri tölvukerfa, en sinnir í raun allri upplýsingatækniþjónustu fyrir fyrirtæki. Stærstu viðskiptavinir Netheims eru í smásölu en fyrirtækið þjónustar einnig heildsölur, lögfræðistofur, tannlæknastofur, verkfræðistofur, útgáfufélög, starfsmannaleigur.

„Við erum reynsluboltar í upplýsingatæknibransanum og leggjum mikla áherslu á persónulega og góða þjónustu sem endurspeglast í ánægðum viðskiptavinum sem hafa verið með okkur frá upphafi. Samlegðaráhrif eru mjög spennandi þar sem styrkleikar hvors fyrirtækis fyrir sig vega hvort annað upp.  Fyrir Netheim styður sameiningin við þá vaxtarmöguleika sem við höfum horft til.  Að koma Netheims „hjartanu“ inn í Wise og styrkja það með fleira fólki er eitthvað sem okkur hefur dreymt um,“ er haft eftir Ellerti Kristjáni Stefánssyni, annars eigenda Netheims.