Lággjaldaflugfélagið Wizz Air ætlar að opna nýja flugstöð á Gatwick flugvellinum og hefur kallað eftir því að eftirlitsaðilar leyfi „viðskiptaöflum að ríkja“ svo að flugfélagið geti sótt í lendingarleyfi frá samkeppnisaðilum. Financial Times segir frá .

Ungverska flugfélagið hyggst setja á laggirnar fjórar nýjar flugleiðir frá Gatwick fyrir lok október næstkomandi. Wizz sér fram á tækifæri til að stækka hlutdeild þess í flugiðnaðinum þar sem önnur flugfélög með hærri kostnað leita leiða til að skera niður rekstur sinn þar til eftirspurn í bransanum nær sér á ný.

Flugfélagið áætlar að um 200 störf verði til í framleiðslukeðju sinni vegna breytinganna. Flugstöðin mun gera félaginu kleift að stækka umfang sitt á flugvellinum ef lendingarleyfi losna, samkvæmt Owain Jones, framkvæmdastjóra Wizz í Bretlandi.

Wizz hefur hvatt evrópsk ferðamálayfirvöld að taka aftur upp reglugerð sem neyðir flugfélög að afsala sér lendingarleyfum á flugvöllum ef nýtingarhlutfall þeirra fer undir 80%. Reglugerðin, einnig kölluð 80/20 reglan, var tímabundið ógild vegna áhrif kórónaveirunnar á flugiðnaðinn.

Umsvif Wizz í Bretlandi eru nú jafn mikil og áður en ferðatakmarkanir vegna Covid voru innleiddar í mars. Jones útilokar þó ekki að áform félagsins breytist verði kvaðir um sóttkví hertar.