Gjaldþrot Wow Air er ástæða þess að stjórnendur ungverska lággjaldaflugfélagsins Wizz Air hafa ákveðið að bjóða upp á daglegt flug til Íslands frá London. Greint er frá þessu á fréttavefnum turisti.is og vitnað í blaðafulltrúa Wizz Air. „Ein af ástæðum velgengni okkar er hversu hratt við getum brugðist við breytingum á markaðnum. Við brugðumst því við um leið og WOW air varð gjaldþrota,“ segir Andras Radop blaðafulltrúi.

Indigo Partners er stór hluthafi í Wizz Air en stjórnarformaður Indigo, William Franke, skoðaði kaup á Wow air fyrr í vetur.

Samkvæmt frétt turisti.is þá hóf Wizz Air Íslandsflug frá Luton flugvelli við London í fyrra og stefndi að því að fljúga daglega hingað yfir vetramánuðina en hafi fallið frá þeim áformum þar sem eftirspurn hafi ekki reynst nægileg. Þessi staða hafi breyst með brotthvarfi Wow.