Ungverska lággjaldaflugfélagið Wizz air undirbýr innanlandsflug í Noregi, en verkalýðsfélög í landinu eru alfarið á móti starfsemi félagsins.

Félagið hyggst staðsetja tvær Airbus A320neo flugvélar í landinu og fljúga milli Osló og þriggja flugvalla nokkrum sinnum á dag frá nóvember. Flugfélagið hefur flogið til Noregs frá árinu 2006 og flýgur nú til 11 áfangastaða í landinu, í heildina 48 flugleiðir til 12 landa.

Í sjóðum félagsins eru um 17 milljarðar norskra króna, eða sem samsvarar 253,5 milljarðar íslenskra króna. Það var stofnað árið 2003, og hefur vaxið hratt. Jafnvel þó kórónuveirufaraldurinn hafi haft áhrif á flugfélagið þá hefur því gengið betur en mörgum öðrum sem hafa þurft að þiggja ríkisstuðning.

Á sama tíma stefna fjárfestar í kringum Erik G. Braathen, að stofnun nýs flugfélags í landinu, en á árunum 1946 þar til það sameinaðist SAS var Braathens stærsta innanlandsflugfélagið í Noregi. Braathen sem stýrir fjárfestingarfyrirtæki í NOregi hyggst leggja sjálfur 50 milljónir norskra króna, andvirði um 746 milljóna íslenskra króna, í félagið sem ekki hefur fengið nafn.

Bjóða SAS og Norwegian birginn

Ungverska lággjaldaflugfélagið Wizz air boðar að það muni fljúga frá Osló til Bergen og Tromsø fjórum sinnum á dag og tvisvar á dag til Þrándheims frá og með 5. nóvember. Félagið boðar að flugmiðinn muni kosta 199 norskar krónur, eða sem samsvarar rétt tæplega 3 þúsund íslenskum krónum. Félagið hyggst staðsetja tvær vélar í landinu til að sinna innanlandsfluginu.

Haft er eftir József Váradi forstjóra og meðstofnanda Wizz í norskum fjölmiðlum að á innanlandsmarkaði í Noregi hafi lengi ríkt þægileg fákeppniseinokun Norwegian og SAS.

„Við viljum brjóta hana upp og bjóða skýran valkost fyrir ferðamenn í Noregi. Hagkvæmari, hreinni og sjálfbærari valkost,“ segir Váradi.

Félagið segist þurfa að bjóða svipuð launakjör og almennt í Noregi því annars muni enginn vilja starfa fyrir félagið, en framan af muni það nýta þá starfskrafta sem félagið sé nú þegar með í landinu enda flogið til þess árum saman. Hins vegar hyggst félagið ekki gera samninga við verkalýðsfélög og segir það ekki þurfa.

„Nei, það er ekki í áætlunum okkar. Við erum flugfélag án verkalýðsfélaga,“ segir Váradi. „Við erum stolt af menningu félagsins okkar. Við erum með opið og gott samtal innan félagsins, þar á meðal við starfsmannaráð.“

Benti Váradi á að félagið sé knúið áfram af markaðsaðstæðum og það muni búa til verðmæti fyrir hluthafa sína.

„Það er algert rugl ef einhver heldur að við munum ekki bjóða samkeppnishæf laun. Þá myndum við ekki fá flugmenn eða aðra starfsmenn til að fljúga fyrir okkur. Ég held við séum með hamingjusamara skipulag en mörg önnur fyrirtæki sem eru með samninga við verkalýðsfélög,“ segir Váradi.

Yngve Carlsen formaður norskra flugmannasamtaka segir að ef félagið starfi út frá flugvellinum í Osló þá þurfi það að fylgja norskum reglum. Hann sagði ekki mögulegt að komast hjá félagslegri ábyrgð sinni í Noregi. „Svona störfum við hér,“ segir Carlsen.