Michael O‘Leary, forstjóri Ryanair, telur að flugfélögin Wizz Air og easyJet þurfi annað hvort að sameinast eða falla inn í stærri samstæður af öðrum flugfélögum við aukna samþjöppun á flugmarkaðnum eftir faraldurinn. Financial Times segir frá.

EasyJet hafnaði í síðustu viku viðræðum um yfirtöku frá Wizz Air og ákvað þess í staðinn að ráðast í 1,7 milljarða dala fjármögnun.

„Bæði easyJet og Wizz þurfa annað hvort að vera tekin yfir [...] eða renna saman,“ segir O‘Leary í viðtali við FT. Hann segir að félögin passi vel saman en bæði notast þau einungis við Airbus vélar og starfa að mestu leyti á ólíkum markaðssvæðum.

Samruni við easyJet myndi auka hlutdeild Wizz verulega í Vestur-Evrópu. Wizz hefur hægt og rólega verið að færa sig yfir í vesturhluta Evrópu eftir að hafa byggt sig upp í gegnum heimamarkað sinn í Austur-Evrópu á síðustu fimmtán árum. Aftur á móti hefur rekstrarkostnaður easyJet verið nokkuð hærri en hjá Wizz og því myndi aukinn kostnaður fylgja samrunanum fyrir Wizz.

„Spurningin er hvort Wizz mun bæta kostnað easyJet eða hvort easyJet mun eyðileggja kostnaðargrunn Wizz,“ segir O‘Leary.

Hann gaf til kynna að ef ekki yrði af samrunanum þá gætu stór kjarnaflugfélög líkt og IAG, móðurfélag British Airways, Lugthansa eða Air France á endanum reynt að kaupa keppinauta sína, hvort sem það eru lággjaldaflugfélög eða félög með minna leiðakerfi.

„Samþjöppun þarf að gerast og mun gersast. Það er óumflýjanlegt, sérstaklega þegar við komum út úr Covid,“ er haft eftir O‘Leary. Hann bætti við að flugfélög þurfi að ná vissum skala til að lifa af og að evrópski markaðurinn í dag sé ósjálfbær til lengri tíma. Ríkisstuðningur evrópskra stjórnvalda við sín heimaflugfélög hefur því ekki fallið vel í kramið hjá O‘Leary.

Hann áréttaði hins vegar að Ryanair hefði ekki áhuga á samruna eða yfirtöku á þessum tíma þar sem hann óttast að það myndi ógna skilvirka viðskiptamódeli írska flugfélagsins. O‘Leary viðurkenndi þó að hann hefði reynt nokkrum sinnum að kaupa Wizz af stofnandanum Bill Franke, á árunum fyrir skráningu Wizz í London kauphöllina árið 2015.

„Ég reyndi að kaupa Wizz af honum þrisvar eða fjórum sinnum, en við náðum aldrei að samkomulagi um verð,“ segir O‘Leary.