Jordan Belfort, betur þekktur sem „The Wolf of Wall Street“ kennsir sölu- og sannfæringartækni í Hörpu í maí. Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að koma hans hingað tengist söluráðstefnu á vegum Iceland Events.

Belfort var stórtækur fjárfestir og braskari á Wall Street undir lok síðustu aldar. Undir lok tíunda áratugarins var Belfort ákærður fyrir fjársvik og peningaþvætti og dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir að hafa afvegaleitt fjárfesta og haft af þeim stórfé. Ofan á fangelsisdóminn var Belfort dæmdur til að greiða til baka 110 milljónir dala, jafnvirði rúmra tólf milljarða íslenskra króna, sem hann hafði svindlað á viðskiptavinum vínum. Belfort hefur skrifað tvær sjálfsævisögulegar bækur um brask sitt, The Wolf of Wall Street og Catching the Wolf of Wall Street.

Samnefnd kvikmynd, þ.e.a.s. The Wolf of Wall Street með Leonardo DiCaprio í hlutverki Belfort, var tilnefnd til fimm Óskarsverðlauna. Hún hlaut hins vegar engin.