Í The Sceptic dálki Dow Jones fréttastofunnar segir að það sé verulega ólíklegt að Woolworth's nái að rétta af reksturinn á næstunni, mun líklegra sé að hrakfallasaga verslunarinnar haldi áfram. Sala hefur minnkað um 8,3% í verslununum á fyrstu sex mánuðum ársins og var tap fyrirtækisins 64,9 milljarðar punda (8,7 milljarðar króna) á tímabilinu, samanborið við 20,2 milljarða punda (2,7 milljarða krónu) tap á sama tíma í fyrra.

Í ljósi versnandi gengis fyrirtækisins, veltir höfundur dálksins því fyrir sér hvers vegna stjórnendur þess séu vongóðir um að geta aukið arðgreiðslur til hluthafa um 4,9%. Greinarhöfundur veltir því fyrir sér hvort það gæti verið vegna hugsanlegs yfirtökuboðs Baugs eða annarra aðila, en hvernig sem fer ættu hluthafar ekki að gera sér miklar vonir, segir greinarhöfundur. Félagið Unitiy, sem meðal annars er í eigu Baugs, á 10% hlut í fyrirtækinu.

Ef hækkun á arðgreiðslum er tilraun Woolworth's til að halda úti ímynd um velgengni, ættu hluthafar að spyrja sig hvers vegna Baugur, sem nýverið lauk við kaup á House of Fraser, ætti að hafa áhuga á að kaupa fyrirtæki á niðurleið. Ef Baugur hefur áhuga á að kaupa Woolworth's, hefur Baugur sennilega efni á að bíða með það, en þrátt fyrir orðróm um yfirtöku á Woolworth's hefur gengi hlutabréfa þess lítið hækkað það sem af er árinu. Raunar er líklegt að gengi smásölufyrirtækja sem ekki selja matvöru muni versna á næstu mánuðum í Bretlandi, segir í greininni.