Hlutabréf í Woolworths verslunum lækkuðu um 10% í dag í kjölfar þess að fyrirtækið tilkynnti að jólasalan þyrfti að aukast talsvert svo að neðri mörk afkomuspár fyrirtækisins fyrir árið náist, segir í frétt Dow Jones.

Í tilkynningu fyrirtækisins segir að í ljósi þess að sala síðustu tvo mánuði hafi verið undir væntingum, sé viðeigandi að sýna varkárni. Þar segir jafnframt að afþreyingardeild fyrirtækisins væri erfiðust í rekstri, en að leikfangasala væri enn öflug.

Breskir fjölmiðlar greindu frá því í september að Baugur, sem á 10% hlut í Woolworths, hafi hvatt til þess að fyrirtækinu yrði skipt upp og að afþreyingareiningin 2 entertain yrði seld.

Greiningaraðili Seymour Pierce, segir það býsna óvenjulegt að smásöluaðili gefi út afkomuviðvörun rétt fyrir jól og segir það gefa til kynna að afkoman sé nú verulega undir spám.