Woolworths hefur hafnað yfirtökutilboði í verslunarrekstrur félagsins. Tilboðið var sett fram af hópi fjárfesta undir stjórn stofnanda Iceland, Malcolm Walker. Í yfirlýsingu sem stjórn Woolworths sendi frá sér í dag er því haldið fram að yfirtökutilboðið meti ekki undirliggjandi verðmæti reksturs og eigna Woolworths með fullnægjandi hætti. Sharewatch.com greinir frá þessu.

Baugur er meðal þeirra sem koma að yfirtökutilboðinu, en félagið á þegar 10% hlut í Woolworths.

Greint var frá því á vb.is að yfirtökutilboð hefði borist í Woolworths, en meðal þeirra skilyrða sem fylgdu tilboðinu var að fyrri eigendur myndu halda eftir skuldum félagsins og ýmsum lífeyrisskuldbindingum. „Það er óásættanlegt að mati stjórnar,” segir í yfirlýsingu Woolworths.

Yfirtökutilboðið tók einungis til 815 verslana Woolworths, ekki heildsöludeilda félagsins sem höndla meðal annars með tónlist og kvikmyndir.

Greiningaraðilar og aðrir kunnugir rekstri Woolworths sögðu að verslunararmur Woolworths væri ekki að skila góðri afkomu og hefði lækkandi áhrif á hlutabréfaverðið.