World Class og hópur fjárfesta hefur undirritað samkomulag við eigendur Equinox, sem er leiðandi líkamsræktarkeðja í Danmörku, um kaup á öllu hlutafé félagsins. Frá þessu var greint í frétt í Viðskiptablaðinu fyrir nokkru síðan.

Equinox rekur 13 líkamsræktarstöðvar víða um Danmörku og er með um 25.000 manns á félagaskrá sinni. Markaðsstaða félagsins er sérlega sterk á Jótlandi þar sem 12 af stöðvum félagsins eru. Flaggskipið er síðan 7.000 fermetra stöð í miðborg Kaupmannahafnar.

Það var Straumur Burðarás fjárfestingabanki sem aðstoðaði við kaupin.

"Það er spennandi fyrir World Class að fá tækifæri til þess að fjárfesta í Equinox og við horfum spennt til þess að halda áfram að þróa rekstur félagsins. Við höfum fylgst vel með þessum markaði um nokkurt skeið og teljum hann mjög spennandi og teljum að Equinox falli fullkomlega að markmiðum World Class," er haft eftir Birni Leifssyni stofnanda og eiganda World Class í tilkynningu félagsins.