Fyrirtækið Laugar ehf., sem rekur líkamsræktarstöðvar World Class hér á landi, hagnaðist um 533 milljónir króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í ársreikningin fyrirtækisins.

Þetta er mun meiri hagnaður en ári fyrr þegar fyrirtækið hagnaðist um tæpar 27 milljónir króna. Aukningin skýrist hins vegar af því að Landsbankinn endurreiknaði erlend lán félagsins á árinu og námu endurreikningarnir alls 468 milljónum króna.

Tekjur vegna sölu aðgangskorta nam tæplega 1,8 milljörðum króna á árinu og jókst um 120 milljónir króna á milli ára. Rekstrargjöld námu 1,4 milljörðum króna.

Eignir fyrirtækisins samkvæmt efnahagsreikningi námu 3,6 milljörðum króna í lok síðasta árs. Þá voru skuldir 3,1 milljarður króna og nam eigið fé félagins því næstum hálfum milljarði króna í árslok.

Stjórn Lauga ákvað að úthluta engum arði á árinu 2014. Hafdís Jónsdóttir er stærsti hluthafi fyrirtækisins með 48,78% hlut. Sigurður Leifsson á 26,83% og Björn Leifsson á 24,39%.