*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 28. desember 2007 16:07

World Class opnar 1.500 fm heilsuræktarstöð á Seltjarnarnesi

Ritstjórn

Geir H. Haarde forsætisráðherra og Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, opna á morgun nýja 2000 fm heilsuræktarstöð World Class við sundlaug Seltjarnarness. Opnun stöðvarinnar er liður í átaki World Class þar sem markmiðið er að færa heilsuræktarstöðvar nær íbúum höfuðborgarsvæðisins og auðvelda fleirum að stunda reglulega heilsurækt.

Í tilkynningu vegna opnunnarinnar segir að Heilsuræktarstöð World Class á Seltjarnarnesi sé búin fullkomnum búnaði til heilsuræktar og öll aðstaða eins og best verður á kosið. Stöðin rúmar ríflega 2.000 manns en auk líkamsræktaraðstöðu eru þar æfingasalir, baðstofa og ýmis þægindi í takt við World Class í Laugum. Stöðin er á tveimur hæðum og er gengið inn um anddyri að sundlaug. Gestir hafa allan aðgang að sundlauginni. Eigandi hússins er Laugar ehf. en rekstraraðili stöðvarinnar Þrek ehf. Byggingarkostnaður er rúmur hálfur milljarður króna en Landsbankinn annaðist fjármögnun verksins.

Granítlistaverk Sigurðar Guðmundssonar prýða aðkomu að stöðinni en verk eftir hann eru einnig í baðstofunni. Gufuböðin eru, eins og í Laugum, frá þýska fyrirtækinu Klafs. Öll æfingatæki eru af gerðinnni Life Fitness og Hammer Strenght  en framleiðandi þeirra er leiðandi í gerð heilsuræktartækja í heiminum.

Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri Seltjarnarness, segist reikna með að Seltirningar kunni að meta þá auknu þjónustu sem felst í nýrri heilsurækt World Class á Seltjarnarnesi. „Samstarf okkar við World Class um byggingu stöðvarinnar hefur tekist afar vel  og er ágætt dæmi um vel heppnaða samvinnu einkaaðila og sveitarfélaga þegar kemur að framkvæmd viðamikilla verkefna. Heilsurækt World Class verður án efa til að auka á lífsgæði bæjarbúa og er jafnframt góð viðbót við glæsilega íþróttamiðstöð bæjarins, sundlaug og nýjan keppnisvöll með gervigrasi.“

Hafdís Jónsdóttir og Björn Leifsson í World Class segja mikla áherslu hafa verið á að gera nýju heilsuræktarstöðina sem best úr garði. „Íbúar Seltjarnarness og nágrennis fá fyrsta flokks aðstöðu til heilsuræktar í tengslum við sundlaugina. Við vonum að nýja stöðin verði mörgum hvatning til að byrja í heilsurækt en það hefur gefið góða raun að samnýta kosti hefðbundinnar heilsuræktarstöðvar og sundlaugar. Við óskum Seltirningum til hamingju og vonum að stöðin verði bænum til sóma.“

Arkitektahönnun nýju heilsuræktarstöðvarinnar var í höndum Funkis teiknistofu. Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen sá um hönnun burðarvirkja, lagna og eldvarnarmála. Loftræsilagnir voru hannaðar af Almennu verkfræðistofunni og raflagnir af RTS verkfræðistofu. Verkefnastjórn var á hendi verkfræðistofunnar KJG ráðgjafar en Ístak annaðist jarðvinnuframkvæmdir.

Eigandi World Class, sem stofnað var 1985, er Þrek ehf. Auk nýju stöðvarinnar á Seltjarnarnesi eru stöðvar World Class í Spönginni í Grafarvogi, í húsi Orkuveitunnar við Bæjarháls, við Dalshraun í Hafnarfirði, við Lágafellslaug í Mosfellsbæ og í Laugum í Laugardal, stærstu heilsuræktarmiðstöð landsins. Korthafar hérlendis eru samtals um 15.000. Í byrjun nýs árs verður ein heilsuræktarstöð til viðbótar opnuð á 15. hæð í nýja turninum við Smáratorg. Viðskiptavinir World Class hafa aðgang að 15 Equinox-heilsuræktarstöðvum í Danmörku en ráðgert er að opna fjórar nýjar stöðvar í Danmörku á næsta ári, eina í Óðinsvéum í janúar og þrjár á Kaupmannahafnarsvæðinu. Fjöldi korthafa í Danmörku er um 30.000.