World Class opnar á mánudag 700 fermetra heilsuræktarstöð í nýju húsnæði við Dalshraun 1 í Hafnarfirði en opnaðar verða fjórar nýjar heilsuræktarstöðvar undir merkjum World Class á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu frá 10. desember til 4. janúar – í Hafnarfirði, við Lágafellslaug í Mosfellsbæ, við sundlaugina á Seltjarnarnesi og á 15. hæð í nýja turninum í Smáranum í Kópavogi. Í byrjun janúar verða því sjö heilsuræktarstöðvar reknar undir merkjum World Class hér á landi með aðstöðu fyrir um 20.000 iðkendur.

Í tilkynningu vegna opnanna er haft eftir Birni Leifssyni og Hafdísi Jónsdóttur í World Class að frá opnun Lauga í ársbyrjun 2004 hafi markmiðið ávallt verið að bæta þjónustuna. „Viðskiptavinir okkar eru dreifðir um allt höfuðborgarsvæðið en með opnun fjögurra nýrra stöðva færum við fyrsta flokks heilsuræktaraðstöðu skrefi nær heimilum og vinnustöðum. Með tilkomu nýju stöðvanna verður þægilegra að stunda reglulega heilsurækt en viðskiptavinir okkar munu hafa aðgang að sjö heilsuræktarstöðvum og þremur sundlaugum með fjölbreyttri aðstöðu til að rækta bæði líkama og sál. Auk þess hafa viðskiptavinir okkar aðgang að 16 Equinox-heilsuræktarstöðvum í Danmörku.“

World Class í Hafnarfirði er 700 fm en þar er tækjasalur, búningsherbergi með gufubaði, barnahorn og veitingasala. World Class í Mosfellsbæ verður 1.000 fm með tækjasal, leikfimisal, barnaleikherbergi með gæslu auk aðgangs að Lágafellslaug og þeirri aðstöðu sem þar er. World Class á Seltjarnarnesi verður stærst nýju stöðvanna, mun rúma um 2.000 manns, en auk heilsuræktaraðstöðu verða þar þrír æfingasalir, baðstofa og barnaleikherbergi með gæslu. Gestir munu hafa aðgang að sundlauginni og aðstöðu hennar. Í byrjun janúar opnar World Class 700 fm heilsuræktarstöð á 15. hæð í nýja turninum í Smáranum þar sem gestir njóta einstaks útsýnis til allra átta og hafa aðgang að tækjasal og búningsherbergjum með gufubaði.