World Class mun opna nýja 2.000 fm heilsuræktarstöð í Norðurturninum við Smáralind í ágúst. Stöðin í Smáralind verður þrefalt stærri en sú sem World Class rekur skammt frá í Turninum við Smáratorg, en henni verður lokað síðar í sumar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu fyrirtækisins í dag. Stöðvar World Class verða því ellefu talsins þegar stöðin í Breiðholti verður opnuð í sumar; tíu á höfuðborgarsvæðinu og ein á Selfossi.

World Class leigir húsnæðið í Norðurturninum af fasteignafélaginu Regin en um er að ræða móttöku, heita potta, gufuböð, stóran tækjasal, þrjá æfingasali og slökunarrými auk búningaaðstöðu.

Nýverið var tilkynnt að nýjar höfuðstöðvar Íslandsbanka yrðu í Norðurturninum þar sem bankinn verður með sjö hæðir. Alls munu um 650 manns starfa á vegum bankans í turninum. Einnig hafa tvö hugbúnaðarfyrirtæki tryggt sér alls sex hæðir í húsinu. Þá er gert ráð fyrir að á jarðhæðinni, í nýrri tengibyggingu úr Smáralind við Norðurturninn, verði a.m.k. tveir nýir veitingastaðir. Ekki er þó búið að ganga endanlega frá samningum við rekstraraðila þeirra.