World Class hyggur á opnun tíundu líkamsræktarstöðvarinnar á Selfossi þann 2. janúar næstkomandi. „World Class verður í nýju húsnæði við sundlaugina á Selfossi," segir Birgitta Líf Björnsdóttir bókari hjá World Class, í samtali við Viðskiptablaðið. Birgitta er dóttir Björns Leifssonar, eins eiganda og framkvæmdastjóra World Class.

Birgitta Líf Björnsdóttir
Birgitta Líf Björnsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Birgitta segir að World Class hafi fundið fyrir eftirspurn á Selfossi og árið 2012 hafi verið áformað að stækka við sundlaugina og bjóða upp á líkamsrækt í þeirri aðstöðu. Því hafi verið ráðist í byggingu nýrrar líkamsræktarstöðvar, en henni er nú lokið. Birgitta segir að verið sé að innrétta stöðina og leggja lokahönd á frágang innanhúss. „Það verða ný og fullkomin tæki í stöðinni," segir hún, en fjárfest hafi verið í nýjum Life Fitness tækjum fyrir 100 milljónir króna.

„Samningar við Jáverk voru undirritaðir núna siðasta föstudag um leigu a húsnæðinu fyrir rekstur líkamsræktar og við sveitarfélagið um aðgang að sundlauginni fyrir korthafa, auk samnýtingar á búningsherbergi og afgreiðslu," segir Birgitta. Forsala líkamsræktarkorta sem gilda í World Class á Selfossi hefst í desember, en kortin verða þá á 25% afslætti. Þau munu einnig veita aðgang að sundlauginni.

Áður hefur verið greint frá því að World Class hyggi á opnun líkamsræktarstöðvar við Breiðholtslaug, en áformað er að sú stöð opni í febrúar á næsta ári. Það verður þá að óbreyttu ellefta líkamsræktarstöðin sem er rekin undir merkjum World Class.