Björn Leifsson, framkvæmdastjóri World Class stefnir að opnun líkamsræktarstöðvar við Tjarnarvelli í Hafnarfirði haustið 2018, en fyrirtæki hans Laugar ehf. hefur fengið úthlutaða lóð þar, í einungis 100 metra fjarlægð frá stöðvum Reebok Fitness.

„Það verður samkeppni þarna á svæðinu en ég hef ekki áhyggjur af því," segir Björn í Fréttablaðinu í dag. „Ég keyri einfaldlega mína gæðastefnu og þá kemur fólkið."

Síðasta miðvikudag samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar umsókn Lauga ehf. um lóðina Tjarnarvellir 7, en þau höfnuðu aftur á móti í maí í fyrra umsókn félagsins um lóð við Suðurbæjarlaug.

Vildi Björn byggja þar 2.000 fermetra líkamsræktarstöð í suðurenda sundlaugargarðsins.

Vildi byggja við Suðurbæjarlaug

„Ég reyndi við Suðurbæjarlaug og fékk ekki og hef alltaf haft áhuga á að koma upp alvöru stöð í Hafnarfirði með leikfimisölum og slíku," segir Björn.

„Húsið sem ég þarf að byggja er 4.200 fermetrar en stöðin sem slík verður um 2.500 fermetrar. Þetta er í stærri kantinum miðað við aðrar stöðvar hjá okkur."

Tvær stöðvar Reebok Fitness rétt hjá

Stöð Reebok Fitness við Tjarnarvelli 3 var opnuð í ágúst 2015 en sú bygging hafði þá staðið tóm frá árinu 2008, en auk þess sömdu bærinn og Reebok Fitness í júlí síðastliðnum um opnun á nýrri líkamsræktarstöð í Ásvallalaug og skrifað undir 5 ára leigusamning þess efnis.

Sundlaugin er svo rétt tæpum hundrað metrum frá bæði eldri stöð Reebok sem og fyrirhugaðri stöð Lauga.